Kennsluaðferðir

Kennsluaðferðir

Einstaklingsmiðað nám

Einstaklingsmiðað nám/sérkennsla er námsyfirferð og/eða námsefni sem miðast eingöngu, eða að sem mestu við nemandann sjálfan en ekki við jafnaldrahópinn.  Með einstaklingsmiðun er verið að mæta þörfum einstaklings.  Í nemendahópnum eru alltaf einhverjir sem þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í gegnum námsefnið, aðrir kunna það nánast áður en það er kennt og þurfa því lítið að leggja á sig.  Með einstaklingsmiðun er verið að mæta hverjum þar sem hann er staddur án þess þó að kröfurnar minnki.  Nemendur eru í aldursblönduðum bekkjum. Þar fá þeir tækifæri til að kynnast yngri og eldri nemendum í leik og starfi og þroska þannig félagsfærni sína.

Nemendur eru ekki allir að læra það sama á sama tíma heldur geta verið að fást við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt.  Hver er að vinna á eigin hraða, einstaklingslega, í paravinnu eða hópvinnu.  Talsverð áhersla er lögð á ábyrgð nemandans á eigin námi, að virkja áhuga þeirra og að þeir séu virkir þátttakendur.  Vegna þess hve nálgunin í einstaklingsmiðuðu námi/kennslu er fjölbreytt og viðfangsefnin oft ólík er mikilvægt að allar skráningar á framförum og verkefnum nemenda séu nákvæmar.

Við förum ýmsar leiðir til þess að mæta einstaklingsþörfum nemenda.  Við kennum íslensku og stærðfræði í áætlun.  Þar er áætlað það sem nemandi vinnur að í eina viku.  Nemendur 1.-4. bekkjar vinna áætlun sem kennari semur fyrir hvern og einn vikulega.  Nemendur 5.-10. bekkjar semja sína áætlun sjálfir. Áætlunarbókin er líka heimanámsbók.  Þannig teljum við gott að foreldrar geti séð og fylgst með því hvort nemendur nái áætlun og hvernig þeim gengur.   Þessi bók á alltaf að vera í töskunni.

Einstaklingsmiðað nám felur í sér að nemandinn er í brennidepli.   Þar eiga kostir og styrkur hvers nemanda að njóta sín.  Helstu kennimenn þessara kenninga eru ekki ómerkari menn en John Dewey og Jerome Bruner.  Howart Gardner sem er helsti talsmaður fjölgreindarkenningarinnar mælir líka með einstaklingsmiðun.   Hann segir að nemendur hafi ólíkan styrkleika og þurfi að fá að nálgast námsefnið á eigin forsendum.

Með áætlun og vinnustofum erum við sífellt að færa okkur lengra í einstaklingsmiðuðu námi.

 

Hringekja

Hringekja er ákveðið skipulag, þar sem nemendur vinna ýmist einir eða í hópum að margvíslegum verkefnum.  Settar eru upp nokkrar stöðvar með ólíkum verkefnum og  hver nemandi  vinnur ákveðið verkefni.  Nemendur byrja ekki allir á sömu stöð, heldur færast þeir á milli.  Nemandi byrjar á einni stöð og vinnur þau verkefni sem þar eru.  Þegar því er lokið, þá fer hann á næstu stöð og vinnur næsta verkefni  þar til öllum verkefnum er lokið.  Misþung verkefni eru á stöðvunum allt eftir því hvaða nemandi er að vinna á stöðinni.

Við kennum tungumál í hringekju.  Það kemur til vegna þess að 5.-10. bekk er kennt saman í tungumálum.  Til þess að allir fái námsefni við hæfi er hringekja mjög hentugt form.

Í hringekju er skólastofunni yfirleitt skipt upp í ákveðin vinnusvæði og ákveðin viðfangsefni eru í boði á hverju svæði.   Á einni stöð er unnið með réttan texta og er textinn misþungur.  Þannig að hver nemandi geti unnið með texta sem hæfir getu og kunnáttu.

 

 

 

 

 

Vinnustofur

Vinnustofur, er kennsluaðferð sem við erum að þróa. Þetta er annar veturinn sem við vinnum í vinnustofum.  Þar reynum við að koma til móts við áhugasvið nemenda í náttúrufræði, samfélagsfræði, landafræði, trúarbragðafræði og jarðfræði.

Námskráin er unnin af nemendum.   Haustið 2012 tóku nemendur sig til og töldu fram allt sem þeir töldu sig þurfa að kunna til þess að kunna eitthvað í samfélags og náttúrufræðigreinum.  Úr varð stór og langur listi sem við flokkuðum svo í nokkra flokka.

Reglan er sú að kennarar stýra vinnustofum á oddatölum og nemendur á sléttum tölum.  Fyrsta vinnustofan ber heitið Eldgos og jarðskjálftar.  Nemendur velja samt sjálfir hvernig þeir nálgast viðfangsefnið.   Þeir mega vinna í hópum , einstaklingsvinnu eða paravinnu.   Nemendur ráða alfarið hvernig þeir skila af sér verkefninu.  Kennarar setja fram markmið og þurfa nemendur að gæta þess að verkefnið þeirra nái til markmiðanna.   Í lok hvers verkefnis eru vinnustofuskil.  Þá er foreldrum og fólkinu í grenndarsamfélaginu boðið til sýningar.  Kennarar meta verkefni nemenda.

Þegar komið er að verkefni á sléttri tölu ráða nemendur alfarið um hvað þeir fjalla.  Verkefnið verður þó að vera á listanum sem þeir sömdu.    Nemendur þurfa sjálfir að setja fram markmiðin  á sléttu tölunum.

Sálfræðingurinn Vygotsky segir að verkefni nemenda verði að vera hæfilega erfið.   Einnig talar hann um að hvatnig og stuðningur kennara væru mikilvægir þættir til að verkefni skiluðu árangri.  Því séu verkefni of einföld eða of þung eigi ekkert nám sér stað.  Vygotsky lagði áherslu á að farið væri millivegur sem kennarar þurfa að þekka og velja.  Þessi millivegur er ekki sá sami hjá jafnöldrum og þess vegna væri einstaklingsmiðun nauðsynleg.

Einnig vitum við að betri árangur næst ef byggt er á áhuga nemenda þegar verkefni eru valin eða þegar okkur tekst að vekja forvitni þeirra og áhuga.   Nemendum er gefið frjálsræði sem eykur sköpunargáfu þeirra og gagnrýna hugsun.

(sbr. Tomlinson, C.A. and Allan S.D. 2000: 18-21)

Samkennsla

Samkennsla fer fram í aldursblönduðum námshópi.  Skiptar skoðanir eru um það hvort þetta sé kennsluaðferð eða ekki.  Í fámennum skólum úti á landi er samkennsla oft komin til vegna fámennis í bekkjardeildum.  En í stórum skólum á höfuðborgasvæðinu er þetta oft á tíðum val hvers skóla.

Oft  er tveimur eða fleiri árgöngum kennt saman í einum bekk og þá án varanlegrar aðgreiningar eftir aldri eða námsgetu.   Í samkennsluhópi eru nemendur á misjöfnum aldri, búa yfir misjöfnum þroska og getu.  Nemendur læra að það er eðlilegt að vinna mishratt og að hver nemandi læri á eigin hraða og nám hans er metið eftir því sem við á.

      Kostir

Þar sem nemendur eru á ólíkum aldri festast nemendur síður í ákveðinni stöðu og nemendahópurinn er síbreytilegur.  Einstaklingurinn verður sýnilegri og í svo blönduðum hópi getur skapast góður námsandi.  Þar má vera barnalegur og þar má vera duglegur.  Þeir eldri læra að taka tillit til þeirra sem yngri eru.   Yngri nemendur leita til þeirra sem eldri eru eftir aðstoð.

      Rannsóknir

Geyfer (1990) sýndi fram á í rannsóknum sínum að nemendur í samkennsluhópi höfðu yfirburði í námstækni, félagslegum samskiptum, samvinnu og viðhorfum gagnvart námi og menntun miðað við nemendur í hefðbundnum bekk.  Nemendur verða ábyrgðarfyllri og tillitssamari.                       (Tomlinson og Demirsky Allan (2000) Ledership for Differentiagting Schools and classrooms)

Kennsla í aldursblönduðum hópum getur líka losað námskrána úr heftingu  aldursbindingar.   Samvinna barna innbyrðis gegnir mikilvægu hlutverki í námi.   Samvinna nemenda með mismunandi þekkingu og mismunandi þroska örvar skapandi og gagnrýna hugsun og vitrænan þroska. Nemendur öðlast með þessu færni til að vinna með yngri nemendum og með eldri nemendum.  Eldri nemendur leiðbeina þeim yngri og yngri nemendur leita oft  frekar til nemenda en kennara.

Rannsóknir á samvinnunámi í blönduðum hópum benda til þess að það sé eitt öflugasta námsform sem til er og komi öllum til góða hver sem námsleg staða þeirra er.  Aldursblöndum skapar því kjöraðstæður fyrir samvinnunám og félagastuðning í námi.  Rannsóknir benda einnig til að nám og starf nemenda í aldursblönduðum hópum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska þeirra og efli forystu og félagslega ábyrga hegðun.   Svo sem að hjálpast að, deila, skiptast á og taka tillit til annarra.

(Úr bók Lilian Katz, Demetrea Evangelou og Jeanetta Allison Hartman (1990) The case for mixed-age grouping in early education.  Washington D.C,; National Association for the Education of young children.)

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>