Grunnþættir menntunar

Grunnþættir menntunar

Þemahefti um grunnþætti í menntun

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur í samstarfi við Námsgagnastofnun út þemahefti um grunnþætti í menntun. Grunnþættirnir eru kynntir í nýjum aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2011.  Við skoðuðum hvern grunnþátt fyrir sig fórum yfir það hvaða þættir í okkar skólastarfi samræmdumst þáttunum.

Þeir eru:

  • Læsi í víðum skilningi,
  • sjálfbærni,
  • heilbrigði og velferð,
  • lýðræði og mannréttindi,
  • jafnrétti,
  • sköpun

Sex grunnþættir menntunar

Í aðalnámskrá grunnskóla eru settir fram 6 grunnþættir menntunar og er þeim ætlað að marka áherslur og hafa áhrif á daglegt skipulag. Í starfi okkar leitumst við við að hafa þá að leiðarljósi í starfsháttum skólans.

Læsi:

Með læsi er ætlast til þess að nemendur hafi þekkingu og leikni til að skilja, skynja,  túlka og miðla texta í  víðum skilningi  (ritmáli, myndmáli, talmáli og  tölum) .  Að nemendur búi yfir þeirri færni að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýninn hátt.   Á fyrstu stigum grunn-skólans skal lögð sérstök áhersla á lestur, ritun og tjáningu.  Stuðla skal að því að leggja rækt við lestur og ritun og að nemendur nái tökum á lestrar og ritunartækni.  Það er hægt að vera læs á mismunandi táknkerfi, eins og tölur eða tónlist.  Það er hægt að búa yfir stafrænu læsi eða miðlalæsi en mikilvægt er að kunna að túlka og notafæra sér fjölmiðla og mismunandi tækni (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011c).  Börn nota,  auk tungumálsins, ýmiss konar hljóð, látbragð og leikræna tjáningu, snertingu, dans, tónlist og myndmál(Mennta- og menningamálaráðuneytið 2011c).  Við leggjum því áherslu á að börnin þrói og þroski með sér öll ,,málin sín ‘‘, allar tjáningaraðferðir.

Hvernig kemur læsi fram í okkar skólastarfi:

  • Við viljum örva sjálfstæða og gagnrýna hugsun.
  • Nemendur fá þjálfun í öflun upplýsinga, greiningu á þeim, túlkun og miðlun.
  • Nemendur 7. bekkjar taka þátt í Stóru –upplestrarkeppninni.
  • Nemendur 1.-7. bekkjar lesa daglega upphátt fyrir kennara.
  •  Áhersla er lögð á frjálslestur.
  • Við reynum að vinna með raunverulegar aðstæður og alvöru verkefni
  • Nám fer að mestu fram í þema- og könnunarverkefnum
  • Við leggjum mikla áherslu á hlustun. Á stundatöflu er tveir fastir tímar hjá 6.-10. bekk þar sem kennari les fyrir nemendur.
  • Með leiksýningum, sem settar eru upp á vorin er tjáning stór þáttur
  • Nemendur kynna verkefni sín úr vinnustofum á 3 vikna fresti fyrir foreldrum og gestum.
  • Vinnustofu- verkefni nemenda fela í sér mikla vinnu með texta og úrvinnslu hans.  Þar læra nemendur að greina gæði texta og beita gagnrýnni hugsun á það sem þau finna á netinu.
  •  Nemendur 6.-10. bekkjar læra samkvæmt hugmyndafræði Orð af orði.

Sjálfbærni:

Í sjálfbærni-menntun felst viðleitin til að skapa samábyrgt samfélag þar sem hver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi viðhorf og tilfinningar sínar. Með sjálfbærni er líka ætlast til þess að nemendur takist á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni í námi sínu. Sjálfbærni snýst um umhverfið, ábyrgð, virðingu, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti í nútíma þjóðfélagi gagnvart komandi kynslóðum.

Hvernig kemur sálfbærni fram í okkar skólastarfi:

  • Við stefnum á að verða grænn skóli.
  •  Við leggjum áherslu á að flokka rusl.
  •  Spörum rafmagn, vatn og sápuefni.
  • Við förum sparlega með pappír og endurnýtum hann.
  • Við notum afgangsefni í verkefnavinnu.
  • Við viljum skapa samábyrgt  skólasamfélag.
  •  Við viljum að nemendur okkar séu meðvitaðir um gildin í samfélaginu og taki þátt í að skapa gott skólasamfélag.
  • Lögð er áhersla á að efla með nemendum siðferðislegt gildi, virðingu og gagnrýna hugsun.
  • Við göngum vel um umhverfi okkar
  • Við gerum nemendum kleift að takast á við verkefni sem lúta að samspili umhverfis og félagslegra þátta í þróun samfélags.
  • Stuðlað er að þekkingu nemenda á framhaldsskólakerfinu og atvinnulífinu

Lýðræði og mannréttindi:

Gagnrýnin hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins er hornsteinn lýðræðis- og mannréttindamenntunar.  Virðing fyrir mannréttindum, viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun. Við leggjum áherslu á virkt samstarf innan skólans og við grenndarsamfélagið.  Þar höfum við lýðræðisleg vinnubrögð að leiðarsljósi.

Hvernig kemur lýðræði fram í okkar skólastarfi:

  • Við eflum gagnrýna hugsun nemenda.
  •  Ræðum um gildi þess að vera í lýðræðislegu samfélagi.
  •  Við tökum tillit til og virðum skoðanir nemenda.
  • Bekkjarfundir eru alla föstudaga þar gefst okkur tími til að ræða mál sem snerta skólann okkar.
  • Við viljum að nemendur og kennarar móti saman þá skólastefnu sem er í skólanum.
  • Grunnskólinn okkar er lýðræðislegur vinnustaður nemenda og kennara.  Með vinnustofum reynum við að mæta áhugasviði hvers og eins.
  • Við leggjum áherslu á að nemendur beri ábyrgð á sínu námi.
  • Með einstaklingsmiðuðu námi erum við að reyna að koma til móts við þarfir hvers og eins.
  • Með vinnustofum komum við til móts við áhugasvið þeirra.
  • Nemendur taka fullan þátt í að móta sérstöku dagana okkar. Nemendur skipuleggja hvernig ,,Litlu jólin“ eiga að fara fram.  Hvernig þorrablótið okkar er skipulagt.  Hvert við förum í ferðalög að vori.
  • Nemendur hafa nemendafélag þar sem þau standa fyrir fjáröflun.  Þetta er alfarið í höndum nemenda.
  • Nemendur semja sína eigin námskrá í náttúrufræði, samfélagsfræði og jarðfræði
  • Nemendur á mið og unglingastigi taka þátt í mati á skólastarfinu með þátttöku í Skólapúlsinum.
  • Við leggjum áherslu á þjálfun lýðræðislegra vinnubragða.

Heilbrigði og velferð:

Skólar þurfa að leggja grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð nemenda. Skólinn þarf að hlú að heilbrigði og þroska hvers og eins.Nemendur þurfa markvisst hreyfiuppeldi.  Nemendur þurfa að vera færir um að taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.

Tekið er mið af ólíkum þörfum nemenda á einstaklingsbundinn hátt.  Við tökum tillit til ólíkra þarfa nemenda okkar  á einstaklingsbundinn hátt. Áhersla er lögð á jákvæðan skólabrag og vellíðan nemenda.  Ánægðir nemendur geta allt.

Hvernig kemur heilbrigði og velferð fram í okkar skólastarfi:

  • Mikil áhersla er á góðan námsárangur og vellíðan.
  • Við viljum að skólinn sé notalegt vinnuumhverfi.
  • Náin samvinna við foreldra/forráðamenn er lykilatriði svo góður árangur náist að velferð nemenda.
  • Við reynum að stuðla að heilbrigði nemenda og leggjum áherslu á jákvæða sjálfsmynd.
  • Við reynum að hafa þann mat sem skólinn býður uppá sem hollastan og leggjum áherslu á að vera ekki með unninn mat.
  • Við viljum að nemendur okkar sýni ábyrgð.
  • Við viljum að nemendur komi fram af virðingu og vinsemd. Það teljum við hafa áhrif á betri líðan í skólanum.
  • Nemendum 8.-10. bekkjar stendur til boða að taka þátt í Skólahreysti
  • Nemendur fá reglubundna fræðslu um heilbrigði og velferð hjá skólahjúkrunarfræðingi.
  • Nemendur geta leitað til námsráðgjafa.
  • Í lífleiknitímum er unnið með eflingu jákvæðrar sjálfsmyndar og góðra samskipta.
  • Við leggjum áherslu á hlýlegt og notalegt umhverfi sem veitir nemendum öryggi
  • Við höfum unnið að jákvæðum skólabrag með því að styðjast við uppbyggingaraðferð Diane Gossen: Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga.

Jafnrétti:

Markmið jafnréttisstefnunnar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum. Nemendur eiga að fá tækifæri til að rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi.  Nemandinn á að búa við öryggi, skilning, frið og umburðarlyndi.  Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu og kennsluhátta.  Lögð er áhersla á nám um menningu, þjóðerni, tungumál og trúarbrögð.  Í menntun um jafnrétti er mikilvægt að fjalla um það hvernig ákveðnir þættir eins og fötlun, kynhneigð geti skapað mismunun og forréttindi í lífi fólks.

Hvernig kemur jafnrétti fram í okkar skólastarfi:

  • Við viljum að í skólanum okkar sé jafnrétti.
  • Þar sem allir  taki virkan þátt í að skapa samfélag sem okkur líður vel í.
  • Áhersla er á að efla sjálfstæði nemenda og sjálfsöryggi þeirra.
  • Við viljum styrkja hvern einstakling svo hann megi blómstra með öllum þeim kostum sem hann hefur.
  •  Við leggjum áherslu á að allir eiga jafnan rétt.
  • Við teljum að allir eigi að fá menntun í samræmi við þroska og áhuga.
  • Við leggjum áherslu á sjálfsvirðingu nemenda.
  • Við leggjum áherslu á að allir fái hvatningu í samræmi við þroska og áhuga.

 Sköpun:

Stefnt er að því að hafa skólastarfið eins skapandi og fjölbreytt og kostur er. Með því að auka veg sköpunar í skólastarfi stuðlum við að fjölbreyttu og kraftmiklu skólastarfi og búum nemendur undir að takast á við framtíð sem er óráðin.  Með viðfangsefnum sem gera kröfur um samþættingu námsgreina má ýta undir samvinnu og auka tækifæri nemenda á mörgum sviðum,  Sem dæmi má nefna ýmiss konar kynningar og leikflutning, þemaverkefni og leiksýningar. Ýta má undir sköpun með kennsluaðferðum sem kalla á sjálfstæðar athuganir samskipti og þar sem nemendur ráða því hvernig þeir skila verkefnum sínum.  Við viljum eiga nemendur sem eru skapandi, sjálfstæðir og hafi gagnrýna hugsun.

Hvernig kemur sköpunin fram í okkar skólastarfi

  • Mikil áhersla er lögð á list og verkgreinar.
  • List og verkgreinar og fléttast einnig inn í vinnustofur. 
  • Við leggjum áherslu á að skólinn okkar sé skapandi skóli.
  • Með því að setja náttúru- og samfélagsgreinar í vinnustofuform teljum við starfið verða skapandi og áhugavert fyrir hvern einstakling.
  • Við leggjum áherslu á samþættingu list-og verkgreina við náttúru- og samfélagsfræði.
  • Stórar leiksýningar eru settar upp að vori. Þar sem allir taka þátt.
  • Nemendur fá mörg tækifæri til þess að skila verkefnum sínum sem leiksýningum og stuttmyndum.
  • Nemendur vinna fjölbreyttar vinnubækur.
  • Nemendur unglingastigs taka þátt í fjölbreyttu val á Þórshöfn alla miðvikudaga.
  • Við setjum upp sýningu á verkum nemenda að vori.
  • Við hvetjum nemendur til að fara eigin leiðir í verkefnaskilum.
  • Við viljum að nemendur okkar séu sjálfstæðir og skapandi.
  • Skólastarfið er brotið upp á ýmsan máta og er stefnan að hafa starfið eins skapandi og fjölbreytt og kostur er.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>