Vinnustofur 8 – Vorið 2013

Heilsuvika

Skólahjúkrunarfræðingurinn sendi okkur póst og hvatti okkur til að taka þátt í heilsuviku. Við ræddum þetta við nemendur og þeir tóku vel í að leggja sitt af mörkum. Áhugi þeirra var mikill og óskuðu þeir eftir því að fá að skipuleggja heila viku þar sem hollur matur og hreyfing væri aðalatriðið. Við samþykktum þetta. Nemendur fengu þrjá daga til að skipuleggja vikuna. Þeir ræddu við matráðinn og fengu það samþykkt að boðið yrði upp á morgunmat alla vikuna.

Ákveðið var að kenna í eina kennslustund (40 mín) og fara svo í morgunmat. Morgunmaturinn samanstóð af hafragraut, grænmeti, ávöxtum og morgungraut Gabríels (bankabygg, sólblómafræ, rúsínur, kanill, hunang og epli). Einnig var lögð áhersla á hollan hádegismat. Morgunmaturinn hófst klukkan 9.10 og voru nemendur þá búnir að vera í hreyfingu fyrstu 40 mínúturnar.

Við fundum mikinn mun á einbeitningu barnanna eftir að farið var að bjóða upp á grautinn. Sá háttur er nú á hafður á að nemendur vinna í áætlun í eina kennslustund og fara svo í morgunmat. Þegar þeir hafa lokið við morgunmatinn halda áfram þar sem frá var horfið við áætlanir sínar.

Mikið var lagt upp úr hreyfingu og æfingum í sal þessa viku. Nemendur fóru í skipulagðar gönguferðir, æfðu blak og gerðu armbeygjur. Nokkrum sinnum fór fram skipulögð stöðvavinna. Elstu nemendur skólans settu upp íþróttastöðvar í sal. Mismunandi verkefni voru á hverri stöð, t.d sipp, armbeygjur, grípa bolta, ganga á jafnvægisslá og fleira. Nemendum var skipt í hópa og hver hópur dvaldi í tíu mínútur á hverri stöð áður en að skipt var.

Hreyfingin var mjög mikil þessa vikuna þó veðrið setti strik í reikninginn. Nemendur fara einu sinni í viku til Þórshafnar í íþróttir og sund og fá þrjá samfellda tíma í íþróttum.

Nemendur sömdu ritgerðir sem tengdust á einhvern hátt hollustu eða óhollustu. Þeir höfðu eina viku til þess að skrifa ritgerðirnar í skólanum (11 kennslustundir). Eftir vikuna var ritgerðin höfð sem heimavinna, en engin önnur heimavinna sett fyrir þá viku. Nemendur máttu þó koma með ritgerðina til þess að fá aðstoð og ráðleggingar frá kennurum. Margir nemendur nýttu sér þetta og komu nokkrum sinnum með uppkastið til þess að láta okkur lesa yfir. Nemendur skiluðu svo ritgerðinni af sér og tóku kennarar hana til yfirferðar og gáfu einkunn og skrifuðu athugasemdir.

Nemendur fengu síðan fjóra daga til að laga það sem kennarar bentu á og hækka þannig einkunn sína. Ef nemendur voru sáttir við þá einkunn sem þeir hlutu þurftu þeir ekki að skila aftur. Þetta var þeirra val. Mikil vinna var í kringum ritgerðina og metnaður nemenda mikill. Þeir skrifuðu ritgerðir um anorexíu, hreyfingu, vítamín, kolvetni, stera, aspartam, orkudrykki og gosdrykki, ávexti og grænmeti. Allt var þetta prýðilega gert. Við lögðum áherslu á rétta uppsetningu, samhengi í texta og heimildaskrá. Þar sem það er í flestum tilvikum mjög auðvelt að ná sér í heimildir var mikil áhersla lögð á að nemendur mættu ekki afrita beint úr heimildum („copy-paste“).

Ekki fer á milli mála að nemendur lærðu mikið á þessu verkefni.