Vinnustofur 7 – Vorið 2013

Ísland

Síðasta haust fengum við veggspjöld (sögukort) þar sem Íslandi er skipt upp og atriði úr sögunni tengd hverjum landshluta.

Nú áttu nemendur að vinna tveir og tveir saman og fræðast um einn landshluta. Við ákváðum að skipta þeim þannig að nemendur þyrftu að vinna með einhverjum sem þeir höfðu aldrei unnið með áður. Síðan var dregið um landshluta. Í þetta sinn ákváðu kennarar efnið en nemendur réðu allri útfærslu.

Tvær stúlkur úr 7. bekk fengu Vestfirðina og byrjuðu á að búa til spil. Þær lögðu mikla vinnu í spilið sem var bæði flókið og margþætt. Þær bjuggu líka til teninga og peð. Loks sömdu þær leiðbeiningar með spilinu og útbjuggu handskrifaða bók með margskonar fróðleik um Vestfirði.

Stúlka í 8. bekk og drengur í 10. bekk fengu Austurland. Þau gera bók um helstu þéttbýlisstaði og ákváðu að fjalla líka um drauga og vætti sem tengdust stöðunum.

Drengur í 10. bekk og stúlka í 9. bekk unnu með Suðurnesin. Þau unnu verkefni um kirkjur og útbjuggu bók. Þau gerðu líka kertastjaka úr krossvið sem var eins og Reykjanesið í laginu. Þau gerðu líka bók um vita og hafnarsvæði, og aðra um merka atburði úr sögunni.

Þrír nemendur, drengur í 9. bekk og tveir í 6. bekk fengu Norðurland eystra í sinn hlut. Þeir skiluðu bók og veggspjaldi um landshlutann.

Tvær stúlkur, önnur í 7. bekk og hin í 6. bekk glímdu við Vesturland. Þær fjölluðu sérstaklega um Snorra Sturluson og skrifuðu um hann bók, auk þess að setja efni á veggspjald. Þær notuðu skjávarpann og drógu upp mynd af svæðinu sínu og færðu þar inn ýmsar upplýsingar.

 

This slideshow requires JavaScript.