Vinnustofur 6 – Vorið 2013

Frjálst val

 

Að þessu sinni fengu nemendur ein fyrirmæli. Við höfðum fengið mörg tölublöð af tímaritinu Lifandi vísindi og ákváðum að nemendur ættu að skoða blöðin og finna eitthvað þar sem þeir gætu fjallað um. Nemendur tóku langan tíma í að skoða blöðin en síðan fóru verkefnin af stað eitt af öðru:

Nemandi í 6. bekk gerði veggspjald um Neanderdalsmanninn, bjó til helli úr pappamassa og hélt fyrirlestur. Það var líka gaman að sjá að þegar nemandinn virtist vera að falla á tíma kom nemandi í 10. bekk óumbeðinn til að aðstoða hann.

Nemandi í 6. bekk gerði PowerPoint-kynningu um Holland. Hann kom með alls konar muni tengda Hollandi. Móðir hans, sem er hollensk, var hans helsti heimildamaður. Hann gerði líka veggspjald um Holland. En eitt dæmi um tengingu við heimilin

Nemandi í 6.bekk gerði veggspjald um Titanic og útbjó skipið líka sem bók.

Nemandi í 7.bekk gerði veggspjald um Kleópötru, teiknaði mynd af henni og flutti kynningu á verkefninu.

Nemandi í 7. bekk handskrifaði bók um hesta og sýndi þau tæki og tól sem notuð eru við reiðmennsku. Bókin var saumuð saman með hrosshárum! Nemandinn fékk pabba sinn með sér í að ná hrosshárunum. Þetta er gott dæmi um þátttöku foreldra í verkefnum nemenda, sem er virkilega skemmtilegt og tengir enn frekar saman skóla og heimili. Nemandinn bjó líka til skartgripi úr hófum, bæði eyrnalokka og hálsmen.

Nemandi í 7.bekk gerði PowerPoint-kynningu um múmíur. Nemandinn vildi líka tengja þetta verkefni við listir. Hann tók trékeilu sem hann vafði með grisju og bjó þannig til múmíu. Hann gerði kistu úr pappa sem hann skreytti með egypsku mynstri og ofan í kistuna setti hann nokkurs konar múmíu úr pappa og gifsi. Þegar nemandinn var að vinna að þessu verkefni og var alveg strand kom nemandinn sem fjallaði um Neandalsmanninn og sagði honum frá ísmanninum Ötzi, sem er frosin múmía sem fannst í Ítölsku Ölpunum árið 1991. Þau komust að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri múmía „fyrir slysni“ og þannig ætti hann heima í verkefninu um múmíur. Hér voru nemendur farnir að fræða  hver annan! Nemandinn sem var að vinna verkefnið um Kleópötru sagði þá að Kleópatra væri líka múmía og það ætti bara eftir að finna hana! Nemendur fóru á flug og ræddu um alla peningana sem þau gætu fengið ef þeim tækist að finna Kleópötru.

Nemandi í 8. bekk valdi sér verkefni um Bermúdaþríhyrningurinn. Hann gerði lista yfir þau skip og þær flugvélar sem hafa horfið á svæðinu, bjó til veggspjald og sýndi mynd þar sem þríhyrningurinn var teiknaður inn og bjó til bók um dularfull hvörf á svæðinu. Eftir að hafa unnið þetta verkefni komst nemandinn að þeirri niðurstöðu að ekkert væri í raun dularfullt við þetta svæði; svæðið væri risastórt og ekkert óeðlilegt við það að skip og flugvélar hyrfu á svo stóru svæði.

Nemandi í 9. bekk gerði líkan að rafmagnsbíl og stórt veggspjald með helstu upplýsingum. Hann vann einn í smíðastofunni og þurfti enga aðstoð. En úr varð flottur bíll með hreyfanlegum hjólum. Svona verkefni hefði okkur kennurum aldrei dottið í hug að leggja fyrir. En þegar börnunum er leyft að ráða för kemur í ljós að þau hafa miklu fjölbreyttari og skemmtilegri hugmyndir en við

Nemandi í 9. bekk valdi að fjalla um vindorku og vindmyllur, útbjó nokkrar vindmyllur úr pappa og gerði veggspjald, auk þess að halda fyrirlestur um efnið

Nemandi í 10. bekk fjallaði um Drekasvæðið og gerði líkan af hugsanlegu hafnarsvæði í Finnafirði og undirbjó og flutti PowerPoint-kynningu. Nemandinn hafði samband við sveitarstjóra og fékk teikningar hjá honum af fyrirhugðu hafnarsvæði.

Nemandi í 10. bekk gerði veggspjald um Leonardo da Vinci og fjallaði sérstaklega um myndina Monu Lisu og helstu kenningar tengdar henni. Hann teiknaði eigin mynd af Monu Lisu (var 12 tíma með hana), flutti loks erindi um efnið; list og uppfinningar da Vincy

 

Hér að neðan koma myndir af verkum

This slideshow requires JavaScript.