Völundarhús plastsins

Jónborg Sigurðardóttir listakona kemur til okkar á fimmtudaginn. Hún verður með okkur fimmtudag og föstudag. Jonna mun setja upp sýningu í salnum okkar. Hún var með sýninguna Völundarhús plastsins í Listasafninu á Akureyri, sýningin er komin til Bakkafjarðar þar sem grunnskólabörn á staðnum vinna verk úr endurvinnsluplasti og verður það á sýningunni með völundarhúsinu. Þetta er samstarfsverkefni barna og listamannsins Jonnu þar sem börn og aðrir fá að fræðast um ofnotkun okkar á plasti og umhverfisáhrif þess.

Undanfarin ár hefur Jonna unnið ýmis verk innblásin af ofneyslu og sóun. Hún vill vekja athygli á að hver manneskja getur lagt sitt af mörkum í umhverfismálum, svo sem með endurnýtingu og notkun fjölnota innkaupapoka.

Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011. Myndlist hennar spannar vítt svið, allt frá málverki til innsetninga. Hún hefur verið mjög virk í listalífinu á Akureyri síðustu árin. (hluti af þessum texta er fenginn af síðu Akureyrarbæjar)